Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 362/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 362/2023

Miðvikudaginn 20. september 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 20. júlí 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. júlí 2023 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna áranna 2021 og 2022.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2021 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 446.719 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2022 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 1.410.829 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreindar ofgreiðslur og innheimtu með bréfum Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. júlí 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 20. júlí 2023. Með bréfi, dags. 21. júlí 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 4. ágúst 2023, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. ágúst 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að Tryggingastofnun ríkisins hafi sent kæranda kröfu að fjárhæð 1.798.092 kr. þann 23. maí 2023. Þann 10. október 2023 hafi henni verið send krafa á ný og hafi þá fjárhæðin verið orðin 1.781.806 kr. Þann 12. júlí 2023 hafi henni verið send 1.410.829 kr. krafa vegna ársins 2022 og 446.719 kr. krafa vegna ársins 2021. Skuldin hafi hækkað og sé nú orðin 1.857.548 kr. Þetta séu óheyrilega háar upphæðir, sem kærandi geti engan veginn greitt. Kröfurnar valdi henni talsverðu uppnámi, svefnleysi og streitu.

Tryggingastofnun ríkisins byggi kröfur sínar á greiðslum frá lífeyrissjóðum, sem kærandi telji að séu Tryggingastofnun ríkisins óviðkomandi. Upphæðirnar sem um ræði séu reiknaðar kæranda vegna lífshættulegra veikinda hennar. Kærandi hafi verið með […] og hafi B lífeyrissjóðurinn til dæmis metið það svo að veikindi hennar hefðu orsakað 100% orkutap frá 1. júní 2020. Kærandi telji það rétt. Tryggingastofnun telji hins vegar að kærandi hafi ekki orðið óvinnufær fyrr en í ágúst 2021 og hafi greitt endurhæfingarlífeyri í samræmi við þá ákvörðun sína.

Rök kæranda séu þau að greiðslur fyrir þann tíma sem Tryggingastofnun hafi byrjað að greiða kæranda endurhæfingarlífeyri séu stofnuninni óviðkomandi og eigi ekkert erindi í útreikninga stofnunarinnar og kröfugerð. Sá tími sem hafi liðið frá því að veikindi hennar hafi orðið umtalsverð og hún hafi orðið óvinnufær, þar til hún sé metin hæf til að þiggja endurhæfingarlífeyri, sé langur, eða 14 mánuðir. Það sé meira en ár aftur í tímann, sem Tryggingastofnun teygi sig til að geta lagt fram kröfu á kæranda.

Upphæðirnar sem kæranda hafi verið ákvarðaðar, séu auk þess brúttó tölur. Hún hafi borgað fullan skatt af þeim greiðslum sem henni hafi borist, enda hafi Tryggingastofnun verið með skattkortið hennar á þeim tíma og upphæðirnar sem hún hafi fengið greiddar hafi verið töluvert lægri en brúttó tölurnar segi til um. Greiðslur frá Tryggingastofnun og þessi meinta skuld við stofnunina ættu að taka mið af þeim tíma sem hún hafi verið háð Tryggingastofnun um greiðslur vegna lífsafkomu hennar, en ekki afturvirkar greiðslur utan þess tímabils.

Hún hafi misst vinnuna […] 2020 vegna covid-19, en auk þess hafi hún verið orðin mjög þjökuð. Hún hafi nánast verið launalaus árið 2020. Árið 2021 hafi hún fengið greitt í tvo mánuði en hafi svo verið alveg tekjulaus eftir það, enda hafi hún verið svo veik að henni hafi var vart verið hugað líf. Þessar afturvirku greiðslur frá lífeyrissjóðunum taki meðal annars tillit til þess, en Tryggingastofnun ekki. Greiðslur sem henni berast frá ýmsum stofnunum séu undir lágmarkslaunum og dugi varla til framfærslu. Hún sé enn óvinnufær og eigi sér engar aðrar bjargir en lífeyrisgreiðslur og endurhæfingarlífeyri. Raunin sé sú að veikindi hennar hafi haft mun víðtækari áhrif en orkutap. Hún þjáist til dæmis af verkstoli, talsverðu og erfiðu minnisleysi, skipulagsleysi, svefnleysi og eigi í erfiðleikum með að skilja og framfylgja skriflegum fyrirmælum. Það sé enn langt í land.

Kærandi sjái ekki fram á að geta greitt þessa kröfu og fari fram á að hún verði felld niður. Henni finnist krafan vera ósanngjörn, óheyrilega há og byggð á röngum forsendum. Tryggingastofnun hafi ekki tekið afstöðu til andmæla hennar.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé endurreikningur tekjutengdra bóta vegna áranna 2021 og 2022.

Í 16. gr. þágildandi laga hafi verið kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Lögunum hafi verið breytt með lögum nr. 18/2023, sem hafi tekið gildi 12. apríl 2023, en með þeim lögum hafi orðið tilfæringar á einstökum ákvæðum laganna þó reglum um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta hafi ekki verið breytt efnislega.

Samkvæmt þágildandi 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar hafi Tryggingastofnun borið að líta til tekna við útreikning ellilífeyris. Í þágildandi 2. mgr. ákvæðisins hafi sagt að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teldust tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum, sbr. 30. gr. núgildandi almannatryggingalaga.

Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. þágildandi 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. þágildandi 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í þágildandi 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt þágildandi 55. gr. laga um almannatryggingar. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 sé heimild til undanþágu frá endurkröfu en þar sé kveðið á um að þrátt fyrir að endurreikningur bóta leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar sé heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Þá skuli einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn.

Kærandi hafi sótt um endurhæfingarlífeyri frá 1. ágúst 2021 þann 17. janúar 2022 og  tekjuáætlun, dagsett sama dag, hafi fylgt með þar sem tilgreint hafi verið að ekki væri um aðrar tekjur að ræða. Kærandi hafi fengið samþykktan endurhæfingarlífeyri frá 1. desember 2021 þann 25. febrúar 2022 og hafi greiðsla inneignar aftur í tímann farið fram sama dag. Samþykkt hafi verið að greiða endurhæfingarlífeyri frá 1. ágúst 2021 þann 8. mars 2022 og hafi greiðsla inneignar einnig farið fram sama dag. Greiðslur endurhæfingarlífeyris hafi haldið áfram til kæranda og sé núgildandi ákvörðun um endurhæfingarlífeyri fyrir tímabilið til 31. ágúst 2023.

Vakin sé athygli á því að við útreikning á tekjutengdum bótum sé miðað við heildartekjur, þ.e. brúttótekjur án tillits til staðgreiðslu skatta. Við útreikning á ofgreiðslum sé á hinn bóginn tekið tillit til staðgreiðslu skatta af tekjutengdum bótum, þ.e. ofgreiðsla sé lækkuð um staðgreiðslu sem greidd hafi verið af viðkomandi greiðslum frá Tryggingastofnun.

Eftir að komið hafði í ljós að kærandi hafði samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins fengið greidda sjúkradagpeninga í febrúar 2022 frá Sjúkratryggingum Íslands að fjárhæð 360.965 kr. hafi tekjuáætlun kæranda fyrir árið 2022 verið leiðrétt og hafi myndast við það krafa að fjárhæð 53.842 kr. sem yrði innheimt á árinu 2023 við endurreikning og uppgjör greiðslna ársins 2022. Tilkynnt hafi verið um leiðréttinguna með bréfi, dags. 15. mars 2022. Sjúkradagpeningarnir munu hafa verið greiddir fyrir tímabilið frá 1. ágúst 2021 til febrúar 2022, þ.e. fyrir tímabil sem kærandi hafi verið að fá greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun.

Eftir að komið hafi í ljós að kærandi hafi samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins verið byrjuð að fá greiðslur úr lífeyrissjóði sem reiknað hafi verið út að yrðu 6.399.244 kr. á árinu 2022 hafi tekjuáætlun kæranda fyrir árið 2022 verið leiðrétt aftur. Við það hafi myndast krafa að fjárhæð 1.781.806 kr. sem yrði innheimt við endurreikning og uppgjör greiðslna ársins 2022. Tilkynnt hafi verið um leiðréttinguna með bréfi, dags. 10. október 2022. Fyrstu greiðslur til kæranda frá lífeyrissjóðum komi fram í staðgreiðsluskrá í ágúst 2022.

Með bréfi, dags. 23. maí 2022, hafi kæranda verið tilkynnt niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2022. Niðurstaðan hafi verið 1.798.092 kr. skuld, að teknu tilliti til áður tilkynntra ofgreiðslna og endurgreiddrar staðgreiðslu, þar sem heildargreiðslur til kæranda á árinu 2022 hefðu numið hærri upphæð en kærandi hafi átt rétt á samkvæmt endanlegum upplýsingum skattyfirvalda um tekjur kæranda á árinu 2022 í skattframtali ársins 2023.

Kærandi hafi andmælt niðurstöðu uppgjörsins á grundvelli þess að hún hefði fengið greiðslur frá lífeyrissjóðum afturvirkt til júní 2020 en gögn sem fylgi með kæru gefi til kynna að kærandi hafi fengið afturvirkar lífeyrisgreiðslur frá 1. janúar 2021. Skattyfirvöld hafi samþykkt þá breytingu á lífeyrissjóðstekjum kæranda á árinu 2022 að í stað þess að lífeyrissjóðstekjur kæranda séu samtals 6.469.770 kr. á árinu eins og upplýsingar í staðgreiðsluskrá gefi til kynna sé á framtölum kæranda að finna lífeyrissjóðstekjur að fjárhæð 2.884.187 kr. á árinu 2021 og 3.585.583 kr. á árinu 2022.

Við endurútreikning á endurreikningi tekjutengdra bóta kæranda fyrir árin 2021 og 2022 þann 12. júlí 2023 hafi niðurstaðan orðið sú að á grundvelli þess að lífeyrissjóðsgreiðslur til kæranda á árinu 2021 hefðu samtals verið 2.884.187 kr., hefðu þær verið 240.349 kr. á mánuði miðað við að fjárhæðin væri reiknuð jafnt á alla mánuði ársins og þar af leiðandi 1.682.443 kr. á tímabilinu 1. ágúst til 31. desember 2021.

Endurútreikningur á grundvelli breyttra forsenda hafi þannig haft í för með sér að við endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2021 hafi myndast ofgreiðsla að fjárhæð 448.284 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta og að við endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2022 hafi myndast ofgreiðsla að fjárhæð 1.410.829 kr. Fjárhæð ofgreiðslu vegna ársins 2022 hafi þannig lækkað úr 1.798.092 kr. í 1.410.829 kr. eða um 387.263 kr. en á sama tíma hafi myndast ofgreiðsla vegna ársins 2021 að fjárhæð 448.284 kr. Flutningur á hluta af lífeyrissjóðstekjum kæranda á árinu 2022 yfir á árið 2021 hafi þannig haft í för með sér að ofgreiðsla hennar hafi hækkað um 61.021 kr.

Ástæðan fyrir því að ofgreiðslan hafi hækkað með þessum hætti sé að við fyrri endurreikning og uppgjör ársins 2022 hafi kærandi misst rétt til greiðslu tekjutryggingar (ofgreiðslan hafi verið 1.617.513 kr.) og sérstakrar uppbótar vegna framfærslu (ofgreiðslan hafi verið 603.578 kr.) og orlofs- og desemberuppbætur hafi lækkað (ofgreiðslan hafi verið 15.679 kr.). Heildarofgreiðsla ársins 2022, þ.e. brúttó fjárhæðin án tillits til staðgreiðslu skatta, hafi þannig verið 2.236.770 kr. Þar sem endurgreidd staðgreiðsla skatta hafi numið 438.678 kr. hafi endanleg fjárhæð ofgreiðslunnar verið 1.798.092 kr.

Við endurútreikning á endurreikningi og uppgjöri ársins 2022 eftir að 2.884.187 kr. af lífeyrissjóðsgreiðslum kæranda á árinu 2022 hafi verið færðar yfir á árið 2021 hafi forsendur breyst með þeim hætti að ofgreiðsla tekjutryggingarinnar hafi minnkað (ofgreiðslan hafi verið 1.008.353 kr.). Ekki hafi orðið breyting á sérstakri uppbót vegna framfærslu (ofgreiðslan hafi áfram verið 603.578 kr.) og orlofs- og desemberuppbætur hafi lækkað minna (ofgreiðslan hafi orðið 2.271 kr.). Heildarofgreiðsla ársins 2022, þ.e. brúttó fjárhæðin án tillits til staðgreiðslu skatta, hafi þannig orðið 1.614.202 kr. og þar sem endurgreidd staðgreiðsla skatta hafi numið 203.373 kr. hafi endanleg fjárhæð ofgreiðslunnar verið 1.410.829 kr.

Við endurútreikning á endurreikningi og uppgjöri ársins 2021 eftir að 2.884.187 kr. af lífeyrissjóðsgreiðslum kæranda á árinu 2022 hafi verið færðar yfir á það ár hafi forsendur breyst með þeim hætti að niðurstaðan væri ofgreiðsla að fjárhæð 1.565 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Ofgreiðsla hafi myndast vegna tekjutryggingar (ofgreiðslan hafi orðið 401.155 kr.), ekki hafi orðið breyting á því að sérstök uppbót vegna framfærslu væri fallin niður (ofgreiðslan hafi orðið 311.660 kr.) og orlofs- og desemberuppbætur hafi verið lækkaðar (ofgreiðslan hafi orðið 10.029 kr.). Heildarofgreiðsla ársins 2021, þ.e. brúttó fjárhæðin án tillits til staðgreiðslu skatta, hafi þannig orðið 722.844 kr. og þar sem endurgreiðsla skatta hafi numið 274.560 kr. og endurgreidd hafi verið áður innheimt ofgreiðsla vegna ársins 2021 að fjárhæð 1.565 kr., hafi endanleg fjárhæð ofgreiðslunnar verið 446.719 kr.

Eftir endurútreikning endurreiknings og uppgjörs áranna 2021 og 2022 hafi ofgreiðsla kæranda hækkað þannig að í stað þess að heildarofgreiðsla vegna ársins 2022 væri 2.236.770 kr. hafi heildarofgreiðsla vegna ársins 2022 orðið 1.614.202 kr. og heildarofgreiðsla ársins 2021 hafi orðið 722.844. Heildarfjárhæð ofgreiðslunnar hafi þannig hækkað úr 2.236.770 kr. í 2.337.046 kr. eða um 100.276. Ofgreiðsla að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta og endurgreiddrar áður innheimtrar ofgreiðslu vegna ársins 2021 hafi þannig hækkað úr 1.798.092 kr. fyrir árið 2022 í 1.410.829 kr. fyrir árið 2022 og 446.719 kr. fyrir árið 2021, samtals 1.857.548 kr. fyrir bæði árin, og ofgreiðslan með tilliti til frádráttarliða hafi þannig hækkað um 59.456 kr.

Ástæða þess að ofgreiðslan hafi hækkað með þessum hætti sé að við fyrri útreikninginn hafi greiðslur tekjutryggingar og sérstök uppbót vegna framfærslu fallið niður í 0 kr. en með því að hluti lífeyrissjóðsgreiðslna kæranda hafi færst yfir á árið 2021 hafi annars vegar verið um að ræða sjö mánaða tímabil þar sem kærandi hafi ekki verið með greiðslu og hins vegar fimm mánaða tímabil þar sem kærandi hafi verið með greiðslur þar sem ekki hafði áður verið gert ráð fyrir að þær væru skertar vegna tekna. Þetta hafi haft í för með sér að þær tekjur sem um hafi verið að ræða hafi haft áhrif á lengra tímabili og þar sem um hærri fjárhæðir hafi verið að ræða hafi þar af leiðandi leitt það til þess að möguleg skerðing vegna tekna hafi orðið meiri. Fullyrðing kæranda um að lífeyrissjóðsgreiðslur til hennar hafi verið aftur til 1. júní 2020 séu ekki studdar af upplýsingum frá lífeyrissjóðunum um greiðslur til hennar. Þó fram komi að metið sé 100% örorkutap frá 1. júní 2020 sé ekki um greiðslur að ræða fyrr en frá 1. janúar 2021.

Ákvæði 55. gr. laga um almannatryggingar fjalli um innheimtu ofgreiddra bóta. Ákvæðið sé ekki heimildaákvæði um innheimtu heldur sé lögð sú skylda á Tryggingastofnun að innheimta ofgreiddar bætur. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega, eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest fyrir dómstólum. Ákvæði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 sé undanþáguheimild og sem slíkt skuli skýra það þröngt. Í þessu ákvæði felist að við ákvörðun um hvort fella eigi niður kröfu eigi að fara fram mat, annars vegar á fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum umsækjanda, með tilliti til getu hans til að endurgreiða skuldina, og hins vegar á því hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn þegar hann hafi tekið við hinum ofgreiddu bótum. Aðstæður þurfi að vera sérstakar svo að undanþáguheimild 11. gr. reglugerðarinnar eigi við.

Umræddar kröfur hafi orðið til við endurreikninga tekjuáranna 2021 og 2022. Ekki sé deilt um að krafan sé réttmæt.

Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli tekjuáætlunar vegna tekna viðkomandi árs. Eins og meðfylgjandi gögn beri með sér þá sé ljóst að ástæða ofgreiðslunnar hafi verið röng tekjuáætlun. Í þessu tilfelli hafi helst verið um að ræða vanáætlun á lífeyrissjóðstekjum. Lífeyrisþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. þágildandi 1. mgr. 39. gr. laganna. Engar breytingar hafi verið gerðar á upprunalegri tekjuáætlun frá 17. janúar 2022 af kæranda.

Með hliðsjón af ofangreindu telji Tryggingastofnun að geta kæranda til endurgreiðslu eftirstöðva krafna sé fyrir hendi.

Að öllu framangreindu virtu sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að ákvarðanir um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta kæranda á árunum 2021 og 2022 hafi verið réttar, enda hafi þær byggst á fyrirliggjandi gögnum, faglegum sjónarmiðum sem og í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu samkvæmt gildandi lögum og reglum.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna áranna 2021 og 2022.

Kærandi fékk greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun frá 1. ágúst 2021. Samkvæmt þágildandi 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í þágildandi 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í þágildandi 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með tilteknum undantekningum. Á grundvelli 3. mgr. 33. gr. laganna ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 34. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 17. janúar 2022. Meðfylgjandi umsókn kæranda var tekjuáætlun þar sem ekki var gert ráð fyrir neinum tekjum. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 25. febrúar 2022, var endurhæfingarlífeyrir samþykktur frá 1. desember 2021. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 8. mars 2022, samþykkti stofnunin endurhæfingarlífeyri afturvirkt til 1. ágúst 2021. Kærandi skilaði inn tekjuáætlun 11. mars 2022 þar sem hún gerði grein fyrir 360.965 kr. sem hún fengi greitt frá Sjúkratryggingum Íslands. Á grundvelli nýrrar tekjuáætlunar var bótaréttur ársins endurreiknaður og kæranda tilkynnt um 53.842 kr. ofgreiðslu með bréfi Tryggingastofnunar, 15. mars 2022. Með bréfi, dags. 15. september 2022, sendi kærandi inn nýja tekjuáætlun vegna ársins 2022 þar sem hún gerði grein fyrir lífeyrissjóðstekjum sem námu 5.160.000 kr. auk 360.965 kr. í sjúkradagpeninga. Á grundvelli nýrrar tekjuáætlunar og upplýsinga úr staðgreiðsluskrá Skattsins var bótaréttur ársins endurreiknaður og kæranda tilkynnt um 1.781.806 kr. ofgreiðslu með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 10. október 2022. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 23. maí 2023, var kæranda tilkynnt um niðurstöðu endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2022. Við endurreikninginn og uppgjörið myndaðist 1.798.092 kr. skuld. Með bréfi, dags. 24. maí 2023, andmælti kærandi niðurstöðu með þeim rökstuðningi að þær greiðslur sem hún hafi fengið frá lífeyrissjóðum hefðu verið greiddar afturvirkt frá júní 2020 og hún taldi því að þær greiðslur sem höfðu borist vegna ársins 2020 ættu ekki að vera teknar með í endurreikninginn. Þá tilkynnti kærandi Tryggingastofnun að skattframtöl hennar vegna áranna 2021 og 2022 væru til skoðunar hjá skattyfirvöldum. Skatturinn féllst á endurupptöku skattframtalanna og í kjölfarið var lífeyrissjóðstekjum kæranda skipt á árin 2021 og 2022, þannig að kærandi hafði 2.884.187 kr. í lífeyrissjóðstekjur á árinu 2021 og 3.585.583 kr. á árinu 2022. Þann 12. júlí 2023 framkvæmdi Tryggingastofnun nýjan endurreikning vegna áranna 2021 og 2022. Endurreikningur ársins 2021 leiddi til 448.284 kr. í ofgreiðslu miðað við að kærandi hafði 1.201.744 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 4.482 kr. í fjármagnstekjur á tímabilinu 1. ágúst til 31. desember 2021. Endurreikningur ársins 2022 leiddi til 1.410.829 kr. ofgreiðslu miðað við að kærandi hafði 3.585.583 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 504.113 kr. í aðrar tekjur og 230.804 kr. í fjármagnstekjur.

Samkvæmt framangreindu reyndust tekjur kæranda vera hærri á árunum 2021 og 2022 en gert hafði verið ráð fyrir. Um var að ræða lífeyrissjóðstekjur, aðrar tekjur og fjármagnstekjur sem eru tekjustofnar sem hafa áhrif við útreikning Tryggingastofnunar á bótafjárhæð, sbr. þágildandi 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og A-lið og C-lið 7. gr. laga um tekjuskatt. Ástæða þess að endurkrafa myndaðist á hendur kæranda er að umræddir tekjustofnar voru vanáætlaðir í tekjuáætlun. Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvarðanir um endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum áranna 2021 og 2022.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, á árunum 2021 og 2022, eru staðfestar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum